[Gandur] Síðasti hádegisfyrirlestur FÞÍ í vetur: Lenka Kovárová - The Swine in Old Nordic Religion and Worldwiew

Gerður Halldóra Sigurðardóttir ghs4 at hi.is
Mon Apr 30 13:21:44 GMT 2012


Fimmtudaginn 3. maí kl. 12.05 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands mun Lenka Kovárová kynna meistararitgerð sína “The Swine in Old Nordic Religion and Worldwiew” en Lenka útskrifaðist úr MA í Norrænni trú frá Háskóla Íslands í október 2011.

Í ritgerðinni er fjallað um hvernig svín (bæði villisvín og alisvín) voru mikilvæg í lífi og trúarbrögðum norrænna manna, með aðaláherslu á Vendel-tímann og seinni tímabil. Gölturinn er eðlilega í fyrirrúmi, enda öflugt tákn sem yfirleitt hefur verið tengt Frey og Freyju, en Lenka færir rök fyrir að hafi sjálfstæða þýðingu. Til grundvallar túlkunar á þýðingu svína, fjallar ritgerðin um helstu hugmyndir um dýr í norrænni heiðni og heimsmynd, þar á meðal trú á hamskipti og fylgjur. Lögð er áhersla á að á járnöld hafi nánd manna og dýra verið meiri en er nú á dögum og að jafnvel hafi verið litið svo á, að gildi dýra hafi verið svipað og manna. Heimildir leiða glögglega í ljós, að ímynd svínsins hafi ekki einskorðast við aðeins einn eiginleika: Hún var augljóslega fjölbreytileg.
En margar þessar birtingarmyndir galta tengjast yfirleitt táknmyndum bardaga, og líka að göltur hefur verið eins konar blætisdýr meðal Svía og hafi meira að segja náð stöðu táknmyndar sænskra konunga, sem virðist sannað af rituðum heimildum, fornleifafundum og jafnvel mannanöfnum. Þetta atriði rennir ennfremur stoðum undir aðalröksemd þessarar ritgerðar, sem véfengir þá útbreiddu skoðun, að litið hafi verið á gelti í norrænni goðafræði sem frjósemistákn, enda sýna gögn fram á, að engar beinar sannanir sé að finna í norrænum heimildum um að geltir standi fyrir frjósemi.

Fyrirlesturinn verður á íslensku.



More information about the Gandur mailing list