[Gandur] Hádegisfyrirlestur: Katla Kjartansdóttir - Vandræðalegir víkingar, 16. mars

Íris Ellenberger irisel at hi.is
Fri Mar 12 12:22:19 GMT 2010


Kæru þjóðfræðingar

Katla Kjartansdóttir þjóðfræðingur flytur erindið Vandræðalegir  
Víkingar. Ímynd - Arfur – Tilfinningar þriðjudaginn 16. mars kl. 12.05  
í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Fyrir örfáum árum tóku hugtökin „útrás“ og „útrásarvíkingar“ að óma í  
íslensku samfélagi. Fjölmiðlar, forsetinn og fleiri tóku þau upp á  
sína arma og gáfu þeim bæði merkingu og þunga. Í erindi sínu mun Katla  
rýna í þessa tilteknu orðræðu þar sem greina má vinsæla (en stundum  
vandræðalega) samfléttun þjóðararfs og viðskipta.

Þjóðararfur er vandræðahugtak og það er víkingahugtakið líka.  
Samtvinnun þeirra í samfélagslegri orðræðu um viðskipti Íslendinga  
erlendis er því vandmeðfarin - og jafnvel vandræðaleg. Í  
fyrirlestrinum verður varpað ljósi á hvernig hin óljósa merking þeirra  
hefur verið nýtt með margvíslegum hætti í gegnum tíðina. Lengi vel var  
það einkum ferðamanna- og menningararfsiðnaðurinn sem gældi við þá  
hugmynd að Íslendingar væru afkomendur víkinga, t.d. með sölu  
„víkingahjálma“ í minjagripaverslunum og áður en menn vissu af var  
„ekta víkingaþorp“ risið í Hafnarfirði. Einnig má nefna frægðarför  
víkingaskipsins Íslendings til Vesturheims sem nú má skoða í  
Víkingaheimum skammt frá Keflavíkurflugvelli.

Íslenskir sagnfræðingar hafa ekki verið á eitt sáttir um þessa  
„víkingaarfsvæðingu“ og má í því sambandi minnast á ritdeilu um  
ristastórt víkingasverð sem reisa átti á Melatorgi við enduropnum  
Þjóðminjasafns Íslands árið 2004. Sagnfræðingar, og aðrir fræðimenn,  
veittu einnig orðræðunni um hina svokölluðu “útrásarvíkinga” andóf en  
hlutu lítinn hljómgrunn.

Nú í upphafi 21. aldar, á tímum hnattvæðingar og menningarlegrar  
fjölbreytni, hljóta vinsældir slíkrar þjóðernisorðræðu þó að vekja  
nokkra furðu. Hugmyndafræði nýfrjálshyggju og síðkapítalisma hefur á  
undanförnum árum gegnsýrt íslenskt samfélag og þar með menningarstefnu  
ríkisins. Leiða má að því líkum að markaðsvæðing þjóðararfsins sé angi  
af þeirri stefnu.

Með kveðju
Íris Ellenberger
-------------- next part --------------
An HTML attachment was scrubbed...
URL: http://listar.hi.is/pipermail/gandur/attachments/20100312/d1ce3cd0/attachment.html 


More information about the Gandur mailing list