[Gandur] Efnahagsástandið - Orðsending frá Félagi leiðsögumanna

valsson at centrum.is valsson at centrum.is
Fri Oct 17 20:47:05 GMT 2008


Félag leiðsögumanna
Mörkinni 6
108 Reykjavík





Orðsending frá Félagi leiðsögumanna



Félag leiðsögumanna lýsir sig reiðubúið til að leggja sitt af mörkum til að draga úr efnahagsþrengingum og þeirri gjaldeyrisþurrð sem að okkur steðjar. Ferðaþjónusta er í eðli sínu útflutningsgrein og Ísland keppir við aðrar þjóðir um hylli ferðamanna, bæði í verði og hvað varðar gæði. 

Íslenskir leiðsögumenn hafa í gegnum tíðina uppfyllt ýtrustu gæðakröfur og getið sér gott orð fyrir þjónustulund og fagmannlega framsetningu á fróðleik og staðreyndum. Þennan góða árangur ber að þakka skipulagðri menntun leiðsögumanna sem á sér nær hálfrar aldar sögu.

Félag leiðsögumanna hvetur aðila í ferðaþjónustu til að snúa vörn í sókn og nýta tækifærið sem nú býðst, í ljósi hagstæðs gengis íslenskrar krónu fyrir erlenda ferðamenn, til að sækja fram á markaði og flytja hingað til lands utan aðalferðamannatímans fleiri ferðamenn í meira mæli en nokkru sinni fyrr. Viðbót við fjölda ferðamanna utan háannar við aðstæður eins og nú ríkja á Íslandi er gulls ígildi með tilliti til gjaldeyristekna.

Félag leiðsögumanna lýsir sig reiðubúið til að útvega ferðaskrifstofum og öðrum sem á þurfa að halda ábyrga, hæfa og vel menntaða leiðsögumenn. Félagið skorar á stjórnvöld að auka veg og vanda þeirrar menntunar sem starfsfólk í ferðaþjónustu hefur aflað sér, enda skiptir menntun starfsfólks í ferðaþjónustu öllu máli í harðri samkeppni við áfangastaði víðs vegar um heiminn, ekki síst við núverandi efnahagsaðstæður.



Nánari upplýsingar:

•	Ragnheiður Björnsdóttir, formaður. Sími 860 3929

•	Pétur Gauti Valgeirsson, varaformaður. Sími 861 9617

•	Stefán Helgi Valsson, ritstjóri vefsíðu og Fréttabréfs FL. Sími 897 2790


More information about the Gandur mailing list