[Gandur] Skaftáreldakynslóðin og samfélagið í byrjun 19. alda

Aðalheiður Guðmundsdóttir adalh at hi.is
Thu Mar 1 09:07:41 GMT 2007


Kæru þjóðfræðingar,

ég vil vekja athygli á þemakvöldi í kvöld:

Skaftáreldakynslóðin og samfélagið í byrjun 19. aldar – ólík afdrif  
Íslendinga á umbrotatímum
Þemakvöld í húsi Sögufélags við Fischersund 1. mars kl. 20

Margret G. Björnsson, BA í þjóðfræði kynnir efni lokaritgerðar sinnar  
„Sel á sandi í minnum manna“. Þar er fjallað um örlög fólks á  
Suðurlandi og flótta þess undan Skafáreldum, og hvernig  
jarðnæðisskorturinn í lok 19. aldar olli því að hjón sem áttu urmul  
af börnum sem tvístrað hafði verið um sveitir, tóku sér bólfestu í  
Auraseli, þar sem þau bjuggu fyrst í fjósinu, til að geta haft börnin  
hjá sér. Margret rekur söguna út frá býlinu fram til okkar tíma,  
segir frá fólkinu þar, örlögum þess og sögum. Hún fjallar um Ögmund  
Ögmundsson sem er talinn vera síðasti galdramaðurinn á landinu auk  
þess sem vesturfarirnar koma við sögu þar sem dóttir hjónanna í Seli  
fluttist til Ameríku.

Sigrún Magnúsdóttir, BA í þjóðfræði kynnir einnig efni sinnar  
lokaritgerðar sem ber titilinn „Föðurlandsvinurinn Hallgrímur  
Scheving“. Ólíkt ritgerð Margretar, fjallar ritgerð Sigrúnar um örlög  
og afdrif eins manns, Hallgríms Scheving (1781-1861). Hallgrímur  
fæddist inn í eitt mesta hörmungatímabil íslensku þjóðarinnar, en  
varð einn mesti lærdómsmaður sinnar tíðar. Til að meta hvaða þættir  
skópu manninn er sjónum beint að ætt, skólaárum og samfélagi í  
upphafi nítjándu aldar. Í Kaupmannahöfn drakk hann í sig strauma  
rómantíkur og þjóðernisvakningar og þar leyfði hann skáldgyðjunni að  
blómstra. Skólasveinar Bessastaðaskóla mátu hann mikils sem kennara  
og var Hallgrímur talinn hafa sett hvað mestan svip á þann virta  
skóla. Hallgrímur var mikill málvísindamaður, sem heillaðist snemma  
af fornbókmenntum. Alla starfsævina stritaði hann við að betumbæta  
íslenska tungu og safna í sarpinn orðum og orðasamböndum, fornum og  
nýjum. Hallgrímur safnaði og skráði þjóðfræðiefni af ýmsum gerðum.  
Hann rannsakaði norræna trú og forn spekikvæði, safnaði  
þjóðsagnaefni, útskýrði leiki og skemmtanir, sagði frá dulrænum  
atburðum og þýddi ævintýri frá framandi slóðum. Hann velti líka fyrir  
sér merkingu drauma, rúna og þjóðsagna. Hann varði allri ævinni í að  
forða menningarverðmætum þjóðarinnar frá glötun og elskaði allt sem  
íslenskt var – náttúruna, tunguna og þjóðmenninguna.


Með kveðju f.h. félagsins,

Aðalheiður Guðmundsdóttir
Stofnun Árna Magnússonar
Árnagarði við Suðurgötu
tel.: (354) 868 0306/ (354) 552 0510
http//:www.hi.is/~adalh








More information about the Gandur mailing list