[Gandur] Ert þú Borgarbarn?

Unnur María. Bergsveinsdóttir unnurm at bok.hi.is
Tue Aug 14 16:24:46 GMT 2007


Ert þú Borgarbarn? 

Borgarbörn segja frá æsku sinni á Menningarnótt.

 

 

Á menningarnótt býður Miðstöð munnlegrar sögu borgarbörnum, ungum jafnt sem öldnum, að tylla sér inn í hljóðver miðstöðvarinnar og segja frá æsku og uppvexti í Reykjavík. Hljóðver Miðstöðvarinnar verður að finna í litlu vinalegu garðhúsi við inngang Þjóðarbókhlöðu. Allir sem heimsækja hljóðverið fá afrit af eigin upptöku á geisladiski. Hljóðverið er opið á milli 13 og 18. Á 2. hæð Þjóðarbókhlöðu gefst gestum svo  kostur á að hlýða á Reykjavíkursögur sem safnað var fyrr á árinu. 

 

Söfnunarátakið Borgarbörn er hluti af stærra verkefni sem nefnist Reykjavíkursögur. Markmiðið er að safna, varðveita og miðla Reykjavíkursögum frá ólíkum tímum. Á árinu 2007 er lögð áherslu á barnið sem borgarbúa, árið 2008 verður athyglinni beint að frístundum sem mótast af borgarumhverfinu og árið 2009 er stefnt að því að safna heimildum um líf og tilveru aldraðra í borginni. Frásagnirnar og viðtölin verða tekin upp og geymdar í safni Miðstöðvar munnlegrar sögu. Þær verða nýttar til að byggja upp sérstakan vef Reykjavíkursagna þar sem  verður hægt að hlusta á frásagnir og fræðast í máli og myndum um lífið í Reykjavík á ýmsum tímum.

 

Verkefnið byggir á virkri þátttöku borgarbúa. Með því að fara með upptökuverið út á meðal fólks er hægt að ná til breiðari hóps en ef upplýsingasöfnunin færi eingöngu fram innan stofnunarinnar. Aðsókn að hljóðverinu var mikil á Vetrarhátíð og komust færri að en vildu. Var elsti þáttakandinn rúmlega sjötugur, og mundi vel eftir því hvernig það var að vera barn á hernámsárunum. Sá yngsti var þriggja ára telpa sem heimsótti hljóðverið í fylgd móður sinnar og sagði sögur af reykvísku leikskólalífi.

 

Miðstöð munnlegrar sögu tók til starfa fyrr á árinu og er safn og rannsókna- og fræðslustofnun á sviði munnlegrar sögu með aðsetur í Þjóðarbókhlöðu. Hlutverk hennar er að safna munnlegum heimildum um sögu landsmanna, miðla þeim og varðveita til frambúðar. Vefsíðu Miðstöðvarinnar er að finna á http://www.munnlegsaga.is

 

Styrktaraðilar Reykjavíkursagna eru Reykjavíkurborg, Ikea og Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Nánari upplýsingar gefur Unnur María Bergsveinsdóttir, verkefnastjóri Miðstöðvar munnlegrar sögu í síma 525-5776 og 691 0374 og í gegnum netfangið munnlegsaga at munnlegsaga.is. 

 

Þess má geta að á annarri hæð Þjóðarbókhlöðu getur einnig að líta sýningu í tilefni þess að í sumar er öld liðin frá komu Friðriks VIII Danakonungs til Íslands 1907. Sýningin lýsir ferðum konungs um landið, myndir sýna aðbúnað, farskjóta, tísku og veður svo eitthvað sé nefnt en í texta er reynt að draga fram atburðarás og andrúmsloft þessa tíma. Sýningin er opin frá klukkan 11 til 18. 

 

 

Með kærri kveðju,

Unnur María

----

Unnur María Bergsveinsdóttir verkefnisstjóri

Miðstöð munnlegrar sögu
 
Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni
Arngrímsgötu 3
107 Reykjavík
 
sími: 525-5775
gsm: 691-0374
netfang: unnurm at bok.hi.is 
vefsíða: www.munnlegsaga.is

 

-------------- next part --------------
An HTML attachment was scrubbed...
URL: http://listar.hi.is/pipermail/gandur/attachments/20070814/2dd82c00/attachment.html


More information about the Gandur mailing list