[Gandur] Vegna aðalfundar

Aðalheiður Guðmundsdóttir adalh at hi.is
Sun Mar 19 21:41:46 GMT 2006


Kæru þjóðfræðingar,

eins og nánar verður auglýst síðar, verður aðalfundur Félags  
þjóðfræðinga á Íslandi haldinn þann 4. apríl n.k. Af því tilefni  
langar mig til að vekja athygli á nokkrum staðreyndum um vetrarstarf  
félagsins 2005-2006.

Sl. vor var starfsemi félagsins heldur lítil, enda hafði það sýnt sig  
að áhugi félagsmanna á félagsstarfinu var takmarkaður, og stundum  
mættu ekki nema 5-6 manns á fyrirlestra. Við sem vorum kosin í stjórn  
í fyrravor  vorum bjartsýn á að okkur tækist að rífa starfsemina upp.  
Vetrarstarfið hefur verið öflugt, fyrirlestrar og aðrar uppákomur á  
u.þ.b. hálfs mánaðar fresti fyrir jól, en eftir jól höfum við sett  
stefnuna á örlítið færri atburði, en stærri.

Í stuttu máli sagt þá hefur þetta tekist ágætlega. Yfirleitt hafa um  
20 manns mætt á fyrirlestra og þemakvöld, en fleiri á tónleika (allt  
upp í 50 manns). Stakir fyrirlestrar, s.s. um drauma og  
jarðarfarasiði í Afríku voru mjög vel sóttir. En höfum við þá yfir  
einhverju að kvarta? Ekki nema kannski helst því að þjóðfræðingar  
voru afar sjaldséðir á þessum viðburðum. Fyrir utan stjórnina sá ég  
einu sinni einn félagsmann, en stundum voru þeir líklega 2-3.

Þá vaknar auðvitað spurningin, fyrir hverja stöndum við í þessu? Er  
réttlætanlegt að stjórn lítils félags haldi uppi öflugri starfsemi  
bara til að halda nafni félagsins/ þjóðfræðinnar á lofti? Er eitthvað  
vit í því að vera að keppa við fjöldann allan af félagasamtökum og  
öðrum sem bjóða upp á afþreyingu fyrir hina og þessa? Vissulega höfum  
við vakið einhverja athygli á félaginu og fengið fólk úr ýmsum áttum  
til að koma og hlýða á það sem við höfum í boði. Ég veit að þetta er  
eitt af hlutverkum FÞ, að kynna fræðigreinina út á við, en spurningin  
er á það að vera það eina sem félagið gerir?

Mig langar því að spyrja félagsmenn hreint út: Hvers vegna mætið þið  
ekki á uppákomur okkar? Mér detta nokkrar ástæður í hug:

1. Fyrirlestrarnir eru óspennandi - og uppákomur félagsins almennt.
2. Hef ekki áhuga, hversu góð sem dagskráin er.
3. Hef ekki tíma.

Ég þykist vita að margir hafa ekki tíma, því að við þekkjum það öll  
að það er margt í boði og að stundum getur verið erfitt að koma sér  
út á kvöldin. Ég myndi samt gjarnan vilja fá álit ykkar á þessu, sem  
og spurningunum:

Á félagið að halda áfram svipaðri starfsemi næsta ár?
Á félagið að hætta allri starfsemi? - þ.m.t. samstarfi við  
Sagnfræðingafélagið um Landsbyggðarráðstefnur (aðeins örfáir  
þjóðfræðingar mættu á Kaflavíkurráðstefnuna þann 4. mars sl.)?
Á félagið að fækka viðburðum verulega? - er það ekki sjálfsblekking  
að halda að slíkt skipti máli, þ.e. er það nokkur hvati á mætingu  
þjóðfræðinga?
Er þörf á félagi fyrir þjóðfræðinga?
Ef já, þá til hvers? Hvernig á slíkt félag að starfa.

Að lokum bið ég þá sem hafa áhuga á að starfa með stjórninni um að  
gefa sig fram. Sjálf hef ég ekki ákveðið hvort ég gef kost á mér  
áfram, og hef ekki heyrt neitt í þá veru frá öðrum stjórnarmeðlimum.  
Það er engu að síður gott að vita hvort og þá hversu mikill áhugi er  
fyrir hendi. Ennfremur, ef ég - sem formaður - er ekki að gera  
félagsmönnum til hæfis, væri gott ef einhver annar treysti sér til  
þess. Það er líka spurning- fyrst það eina sem vetrarstarfið skilur  
eftir sig er að kynna fræðigreinina og félagið út á við - hvort  
heppilegt er að slíkt sé í höndum íslenskufræðings. Eru ekki  
einhverjir þjóðfræðingar í félaginu með brennandi áhuga á að taka við  
og halda nafni fræðigreinar sinnar á lofti?

Þetta mætti e.t.v. ræða á aðalfundinum, eða - ef menn komast ekki á  
hann - ræða málið - og koma með tillögur hér á Gandi.

Með bestu kveðjum,
Aðalheiður Guðmundsdóttir


More information about the Gandur mailing list