[Gandur] Fyrirlestur í Snorrastofu

Bergur - Snorrastofa Reykholti bergur at snorrastofa.is
Fri Sep 19 15:12:07 GMT 2003


Minningarfyrirlestur um Snorra Sturluson

,,Á bók þessi lét ek rita." Nokkur einkenni Heimskringlu

Þriðjudaginn 23. september næstkomandi mun Sverrir Tómason prófessor við Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, halda Minningarfyrirlestur um Snorra Sturluson sem ber heitið ,,Á bók þessi lét ek rita." Nokkur einkenni Heimskringlu." 

Fyrirlesturinn verður haldinn í bókhlöðu Snorrastofu í Reykholti og hefst klukkan 20:30. Í fyrirlestri sínum mun Sverrir gera grein fyrir nokkrum höfundareinkennum Heimskringlu, skýra tilganginn með ritun hennar og setja í samhengi við íslenskt/norskt samfélag á 13. öld  sem og  greina  frá því til hvaða evrópskrar menningarhefðar verkið Heimskringla heyrir.

Ferilinn:

Sverrir Tómasson lauk kandídatsprófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1971, en nam einnig við háskólann í Giessen í Þýskalandi. Hann lauk síðan doktorsprófi frá Háskóla Íslandi 1988, er hann varði ritgerð sína Formálar íslenskra sagnaritara á miðöldum. Sverrir var styrkþegi og síðar sérfræðingur við stofnun Árna Magnússonar á Íslandi frá 1971-76 . Að því loknu vann hann við kennslu og rannsóknir við University College London, Cambridge háskóla, Háskólann í Kiel og Kaliforníuháskóla í Berkeley á árunum 1976-1986. Sverrir hefur kennt við Háskóla Íslands frá 1983 og stundar nú rannsóknir á vegum Stofnunar Árna Magnússonar. Hann hefur rannsakað íslenskar og erlendar miðaldabókmenntir, einkum helgisagnaritun og skáldskaparfræði miðalda. Hann hefur jafnframt flutt fyrirlestra við marga háskóla í Evrópu og Ameríku og fengið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín, svo sem; Íslensku bókmenntaverðlaunin 1992; viðurkenningu Hagþenkis 1997; og verðlaun Gustaf Adolf akademíunnar sænsku árið 1997. Þá hefur Sverrir birt fjölmargar greinar um forníslenskar bókmenntir í innlendum og erlendum tímaritum og bókum og séð um útgáfu fornsagna handa almenningi. 

Fyrirlestur Sverris Tómassonar hefst sem fyrr segir klukkan 20:30 þriðjudaginn 23. september í húsnæði Snorrastofu í Reykholti. Fyrirlesturinn er öllum opinn.

Aðgangseyrir er 400 kr, og verður boðið upp á kaffi í hléi.

Bergur Þorgeirsson,
forstöðumaður Snorrastofu.

-------------- next part --------------
An HTML attachment was scrubbed...
URL: http://ve.rhi.hi.is/pipermail/gandur/attachments/20030919/fdd6674d/attachment.htm


More information about the Gandur mailing list