[Gandur] Menningarstefna, menningararfur og menningarfræði: Málþing í janúar

Valdimar Tr. Hafstein valdimar at uclink4.berkeley.edu
Fri Dec 5 15:17:51 GMT 2003


Menningarstefna, menningararfur, menningarfræði
Málþing ReykjavíkurAkademíunnar
15. til 17. janúar 2004.

Skyldumæting fyrir þjóðfræðinga!

Málþingið hefst með tveimur málstofum, en heldur áfram með stórri opinni 
ráðstefnu í Norræna húsinu. Sjá nánar dagskrá á heimasíðu málþingsins: 
www.akademia.is/menning

Málstofu um menningararf stýrir Barbro Klein, forseti sænsku 
félagsvísindaakademíunnar (SCASSS) og fyrrverandi prófessor í þjóðfræði við 
háskólann í Stokkhólmi, Kaliforníuháskóla í Berkeley, Pennsylvaníuháskóla í 
Fíladelfíu og við Hunter College og New School í New York. Hún hefur margt 
ritað um menningararf og er einhver helsti sérfræðingur á Norðurlöndum á 
því sviði. Eftir hana liggja t.d. bækurnar Gatan är vår! Ritualer på 
offentliga platser, Swedish Folk Art: All Tradition is Change og To Make 
the World Safe for Diversity: Towards an Understanding of Multi-Cultural 
Societies.

Málstofu um menningarstefnu stýrir Tony Bennett, prófessor í félagsfræði 
við Open University í Bretlandi og einn helsti kyndilberi 
menningarfræðinnar á alþjóðavísu. Bennett hefur um langt skeið rannsakað 
hversdagsmenningu og menningarstefnu og ritað margt um þessi efni. Eftir 
hann liggja t.a.m. bækurnar Culture: A Reformer´s Science og The Birth of 
the Museum: History, Theory, Politics. Bennett er með rit í smíðum um sögu 
menningarstefnu á Vesturlöndum frá Upplýsingu til fjölmenningar.

Málstofurnar fara fram á ensku og fjöldi þátttakenda er takmarkaður. Því er 
mikilvægt að skrá sig sem allra fyrst. Þátttakendur fá sendar greinar sem 
þau Bennett og Klein hafa valið og má búast við að málstofurnar verði frjór 
vettvangur fyrir umræður þar sem þátttakendur mæta undirbúnir.

Gjald fyrir þátttöku í málstofunum er kr. 15.000,- (báðar) eða 10.000,- 
(önnur) fyrir stofnanir, en fyrir einstaklinga á eigin vegum er gjaldið kr. 
7.500,- (báðar) eða 5.000,- (önnur).

Skráning fer fram í síma 894-1461 eða í gegnum tölvupóst til rastrick at itn.is

Tony Bennett og Barbro Klein munu einnig halda sitt hvorn opinbera 
fyrirlesturinn við setningu opnu ráðstefnunnar, kl. 15:00 föstudaginn 16. 
janúar, en ráðstefnan heldur síðan áfram á laugardeginum með erindum 
íslenskra fyrirlesara úr ýmsum áttum: fræðaheiminum, menningarstofnunum og 
stjórnsýslunni. Þeirra á meðal eru Birgir Hermannsson, Eiríkur Guðmundsson, 
Guðný Gerður Gunnarsdóttir, Hallfríður Þórarinsdóttir, Jón Ólafsson, 
Svanhildur Konráðsdóttir, Sveinn Einarsson og Úlfhildur Dagsdóttir.

Í Lesbók Morgunblaðsins birtust viðtöl við þau Barbro Klein (29. nóvember) 
og Tony Bennett (6. desember) og hvetjum við fólk til að lesa þau og 
kynnast þannig þessum framúrskarandi fræðimönnum.

Málþingið er haldið af ReykjavíkurAkademíunni í samstarfi við 
Menntamálaráðuneytið, Menningarmálanefnd Reykjavíkurborgar, Lesbók 
Morgunblaðsins, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála og Hugvísindastofnun 
Háskóla Íslands.

Málþingið er hið fyrsta í röð þverfaglegra rannsóknarstefna sem 
ReykjavíkurAkademían mun framvegis standa að á hálfs árs fresti.

Fyrir hönd ReykjavíkurAkademíunnar,
Ólafur Rastrick & Valdimar Tr. Hafstein  
-------------- next part --------------
An HTML attachment was scrubbed...
URL: http://ve.rhi.hi.is/pipermail/gandur/attachments/20031205/c74a3ddd/attachment.htm


More information about the Gandur mailing list