[Folda] Árshátíðarferð - Lesið póstinn í guðs nafni ! Áfram Kristmenn krossmenn!

Bjarni Jósep Steindórsson bjs20 at hi.is
Tue Feb 21 13:13:03 GMT 2012


Kæru félagar í Foldu.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. 
Amen.

En nú er það svo að við sem sitjum í stjórn höfum ákveðið að helgina 
24-25 mars verður farin hin árlega kristilega þemaferð Foldu. Einhver 
ykkur hafa kannski haft veður af þessum fyrirætlunum okkar í síðustu 
viku en fyrir þau ykkar sem ekki eru læs á enska tungu ákváð ég að henda 
í eins og eitt stykki tölvupóst fyrir ykkur að lesa.

Skyldumæting er í ferðina fyrir minnst 20 manns og mun foringi vor 
Minney Sigurðardóttir halda sérstaka viðtalsfundi með hverjum og einum 
meðlimi Foldu til að sannfæra þá um að koma. Fjarvera varðar við 
brottvísun úr deildinni líkt og lesa má í fundargerð síðasta 
deildarfundar Jarðvísindadeildar eða svo ég vitni nú í orð Magnúsar Tuma 
á fundinum "að vanda er skyldumæting í kristilegu þemaferð Foldu fyrir 
framhaldsnema ... þeir sem þykjast hafa eitthvað betra að gera þessa 
helgi .... geta bara drullað sér upp í HR ... að læra 
íþróttakennarann"*. Sagt er að við þessi orð hafi Páll Einarsson slegið 
í borðið æstur mjög og sagt "FOKK JEEE", það fæst þó ekki staðfest að 
hann hafi slegið í borðið en Sigrún Hreinsdóttir skráði klárlega orðin 
"fokk je" í fundargerðina.

Að svo stöddu verður ekki afhjúpað hverjar athafnir iðkaðar verða í 
ferðinni eða hvert verður farið, né hvað kostar, eiginlega verður bara 
ekkert látið uppi. Enda skiptir það svo sem ekki öllu máli hvað verðir 
gjört. Aðalatriðið er að þið mætið og iðkið vora trú. Þó skal það 
upplýst að mögulega verður sérstakt Mission: Impossible þema þar sem við 
munum fara í bónus og reyna að kaupa ferskt grænmeti og reyna að fá 
afgreiðslu á íslensku. Auk þessa munu stjórnarmeðlimir Foldu vera með 
M:I þemað sem hringitón og leitast við því að svara ekki í símann þegar 
hringt er í þá í þeim eina tilgangi að hlusta á lagið.

Í stuttu máli er planið eitthvað á þá leið að á laugardagsmorgni, á 
kristilegum tíma, verður brottför ... líklegast frá Reykjavík. Við förum 
síðan eitthvað, gerum eitthvað og komum síðan aftur á sunnudegi aftur 
... líklegast til Reykjavíkur, á kristilegum tíma.

Félagsmenn þurfa þó ekki að óttast það að þeim leiðist enda mun 
hljómsveit Folda halda uppi stuðinu með tónleikum um kvöldið. Fyrir þau 
ykkar sem ekki þekkja til hljómsveitarinnar er rétt að kynna sveitina 
fyrir ykkur.

Fyrst skal nefna bassaleikarann, hana Sigríði Magnúsdóttur einnig þekkta 
sem Siggu bassa. Sigríður hefur fingrað bassann frá blautu barnsbeini og 
aldrei viljað nota neglur. Sigga skaust fyrst upp á stjörnuhimininn sem 
bassaleikari í hljómsveitinni Kolrassa krókríðandi en sú hljómsveit með 
Siggu innanborð sigraði einmitt músíktilraunir árið 1992. Það var nú 
bara fyrir slysni að Siggu var kippt inn í hljómsveitina á síðustu 
stundu. En æskuvinkona Siggu, og söngvari Kolrassa, hún Elísa 
Geirsdóttir og ,þáverandi bassaleikari Kolrassa, hún Heiða (í Unun) 
börðust um athygli sama mannsins þannig að ekki var verandi með þeim. 
Elísa rak því Heiðu og kippti Siggu inn á síðustu stundu. Það val átti 
eftir að borga sig því auk þess að sigra Músíktilraunir var Sigga kjörin 
besti bassaleikarinn og varð þar með fyrsta og eina konan til að hljóta 
þá nafnbót. Sigga dútlaði einnig við lagasmíðar og eftir hana liggja 
lögin "Ljáðu mér vængi" og "Froskaprins" sem komu út á plötunni 
Kynjasögur, árið 1994. Sigga yfirgaf Kolrassa þegar sveitin breytti um 
nafn og hefur ekki leikið opinberlega síðan árið 1998 á síðustu 
tónleikum Kolrassa undir því nafni, á Grand Rokk. Þetta verða því fyrstu 
tónleikar Siggu síðan 1998 að vitað sé.

Hljómborðsleikarann þarf vart að kynna en það er hún Ásdís 
Benediktsdóttir eða Ace of Benn eins og hún kallar sig erlendis. Ásdís 
byrjaði ung að spila á píanó en byrjaði snemma eftir það að fikta við 
hljóðgervla, foreldrum hennar til lítillar ánægju. Ásdís er núna stödd í 
Uppsölum í Svíaríki þar sem hún er að ljúka 17. stigi í klassískum píanó 
leik. Ásdís kom eins og stormsveipur inn á tónlistarsviðið árið 1999 
þegar hún lék undirspil í laginu Dreamside dominions með Dimmu Borgum. 
Sama ár gekk Ásdís síðan til liðs við hljómsveitina Evergrey að mestu 
fyrir tilstuðlan Carinu Englund eiginkonu Tom Englund söngvara Evergrey. 
Amour var þó ekki lengi að skjóta örvum sínum og fljótlega loguðu 
sænskir slúðurmiðlar í sögusögnum um ástarsamband Ásdísar og Michael 
Håkansson. Sambandið var þó óstöðugt en meðan á því stóð samdi og er 
talið að því hafi lokið árið 2000. Michael tók sambandsslitunum illa og 
til að takast á við tilfinningar sínar samdi hann lögin Words mean 
nothing af Solitude dominance tragedy plötunni og I'm sorry af 
Recreation Day. Ásdís yfirgaf síðan Evergrey árið 2004 eftir útgáfu 
Inner circle og gekk til liðs við hljómsveitina Seventh Wonder árið 2005 
fyrir tilstuðlan Tommy Karevik, söngvara Seventh Wonder, en þau kynntust 
einmitt við Konunglega tónlistarháskólann í Uppsölum. Ásdís hlaut 
eindóma lof fyrir frammistöðu sína og frumlegt val á hljóðgervli á 
plötunni Waiting in the wings sem gefin var út árið 2006 en hefur þó 
alltaf leitað upprunans eins og heyrist best á plötunni The Great Escape 
sem kom út árið 2010. En auk þess að spila með Seventh wonder hefur 
Ásdís spilað inn á lög eins og Breach in my Sanity með Cloudscape og 
Dominion með Scar Symmetry svo einhver séu nefnd.

Söngvarinn þarf vart að kynna en það er foringi vor hún Minney 
Sigurðardóttir. Frægt var þegar Minney sigraði söngvakeppni 
framhaldsskólanna árið 2004 með laginu Ó Skagafjörður - Heimabyggðin 
eina. Þar fetaði Minney í fótspor eldri bróður síns hans Sverris 
Bergmanns sem sigraði keppnina 3 árum áður með laginu Án þín. Almennt er 
talið að sá texti hafi verið saminn um Minneyju en Auðunn Blöndal 
æskuvinur Sverris gekk í langan tíma með grasið í skónnum á eftir 
Minneyju en Sverrir lagði blátt bann við því að hann kæmi nálægt systur 
hans. Í laginu Ó Skagafjörður blandaði Minney saman sögum af náttúrunni, 
hestamennskunni, lífinu á Sauðárkróki og ástinni en Minney hefur til 
margra ára verið unnusta gönguskíðakappans Björgvins Björgvinssonar frá 
Dalvík og skóp skáldið Hannes Péturrson hugtakið "að mætast á miðri 
leið" út frá sambandi þeirra en Minney og Björgvin iðkuðu þann sið að 
hittast á Heljardalsheiðinni miðri til funda þar eð Minney vildi 
ómögulega þekkja heimboð Björgvins. Þessi gjörningur varð síðar til þess 
að Minneyju var úthlutað bleika steininum jafnréttisverðlaunum 
Femínistafélags Íslands. Minney reyndi síðar fyrir sér í ídólinu en 
hlaut ekki náð fyrir augum áhorfenda. Síðan þá hefur Minney að mestu 
haslað sér völl í tónlistinni á Svalbarða með hljómsveit sinni Minney og 
Múmínálfarnir þar sem hún hefur sungið smell bróður síns við mikla 
aðdáun íslenskra jarðfræðinema. Sjálf segir Minney að í henni blundi 
Júróvisjón draumur, hún er bara að bíða eftir rétta laginu.

Þegar kemur að gítarleik þýðir ekki að leita á náðir neinna aukvisa. Í 
tilfelli Foldu var ákveðið að láta ekki bjóða sér neitt rugl, enga 
íslenska gítarleikara í okkar lið. Þannig að ákveðið var að flytja til 
landsins hana Jeannie. Hver í fjandanum er Jeannie kunnið þið að spyrja? 
Jeannie ber eftir nafnið Romeo og jú jú, hún er eins og þið eflaust 
áttið ykkur á, dóttir Michael Romeo gítarleikara Symphony X og 
gítarguðs. Jeannie byrjaði ung að árum að æfa á gítar og byrjaði 
ferilinn í hljómsveitinni Gojira en ákvað eftir 2 plötur að skipta um 
umhverfi og flutti sig til Finnlands þar sem leikur bæði með Mors 
Principium est og Wintersun. Frægustu lög Jeannie eru Parasites of 
Paradise með Mors Principium est og Starchild með Wintersun.

Þá er víst bara einn eftir, það myndi vera sá sem hangir með 
tónlistarmönnum, slíkir félagar eru alla jafna nefndir trommarar. Ekki 
voru gerðar miklar kröfur um getu þegar kom að því að velja trommarann, 
enda hefur Folda að mestu notast við trommuheila á tónleikum. Mitt 
hlutverk hefur að mestu verið að smyrja hann og veita honum félagsskap 
milli tónleika. Ég reyndi eitt sinn fyrir mér sem trommari, það var með 
hljómsveitinni Maroon 5 á tónleikum MTV sjónvarpsstöðvarinnar. Í umsögn 
um tónleikana sagði Nicko McBrain trommari Iron Maiden: "He [ég] was the 
best of them, but they all sucked". Lars Ulrich tók í svipaðan streng og 
sagði í umsögn í Berlingske Tidende: "Drumming Level: Asian, desværre 
kan asiater ikke spille trommer". Hef ég einnig glamrað eitthvað á banjó 
en hef að mestu spilað á samkynhneigðum kynlífsklúbbum í Noregi að skapa 
Deliverance stemmingu.

Til að hita upp fyrir ferðina verða sýndir sérstakir upphitunarþættir á 
RÚV á hverjum miðvikudegi fram að ferð. Í þessum þáttum verður fyrir 
yfir fyrri kristilegar þemaferðir auk þess sem meðlimir 
hljómsveitarinnar munu leika lausum hala. Sigga bassi mun opna sig um 
Kolrassa tímabilið, Ace of Benn mun í fyrsta skiptið ræða um samband 
sitt og Michael, Minney mun svara spurningunni: "átti Auddi Blö séns?", 
Jeannie tjáir sig um lífið í Finnlandi og leitina að frönsku 
eldfjöllunum og ég mun halda sérstaka sýnikennslu í því hvernig á að æla 
út um glugga.

En fyrir þau ykkar sem eruð enn að lesa og eruð engu nær. Þá er ferðin 
áætluð 24-25 mars og VIÐ í stjórninni viljum endilega fá að vita frá 
ykkur ef þið viljið koma með. Það er ekki valkostur að koma EKKI með 
eins og ég hef bent á fyrr í þessum pósti. Því skulið þið endilega panta 
tíma hjá Minneyju um hvar og hvenær hún á að mæta til að sannfæra ykkur 
um að koma með. Þau ykkar sem halda að Minney taki nei sem svari bendi 
ég á það að Björgvin unnusti hennar gaf upp skíðamennskuna af því að 
Minney vildi ekki að hann færi sér að voða.

Því skulið þið endilega senda Minneyju tölvupóst og bóka tíma eða 
staðfesta þáttöku í netfangið (mis3 at hi.is). Þau ykkar sem vilja skrifa á 
frönsku getið sent Jeannie tölvupóst til að staðfesta þáttöku 
(jmg7 at hi.is). Þau ykkar sem dönsuðu grimmt við Ace of Base á sínum tíma 
og finnst Ace of Benn vera geðveikt líkt nafn mega senda Ásdísi 
tölvupóst (asb1 at hi.is). Þau ykkar sem eruð mjög dimmrödduð getið sent 
Siggu bassa tölvupóst (sigrima at hi.is). Og að lokum, þau ykkar sem 
drekkið ótæpilega og finnst gaman að æla getið sent mér tölvupóst 
(bjs20 at hi.is)

Að lokum bendi ég á þetta myndband sem sýnir hvernig fullorðið fólk 
skemmtir sér almennilega: http://www.youtube.com/watch?v=NC2RYn5Z3Og

Ég held að ég sé alveg örugglega ekki að gleyma neinu, en ef þið viljið 
spyrja einhvers þá .....

kv.
Bjarni

*Þess má geta að það að slíta orð einstaklinga úr samhengi er viðurkennd 
aðferð við Háskóla Íslands og kallast akademískt frelsi !


More information about the Folda mailing list