[Folda] Jurtir í jarðsögu Íslands - Erindi á vegum HÍN

Friðgeir Grímsson fossil at hi.is
Thu Mar 26 09:28:21 GMT 2009


Ágæti viðtakandi

 

Mánudaginn 30. mars kl. 17:15 verður haldið sjötta fræðsluerindi vetrarins. 

Erindið verður haldið í fyrirlestrarsal Menntaskólans við Sund að Gnoðarvogi
43.

 


Jurtir í jarðsögu Íslands


Dr. Friðgeir Grímsson flytur erindi um steingerðar plöntur úr jarðlögum á
Íslandi. Í erindinu mun Friðgeir kynna allra nýjustu gögn og niðurstöður um
fornar flórur landsins sem fengist hafa með greiningu steingerðra
plöntuhluta og notkun rafeindasmásjár við greiningu frjókorna. Með
frjógreiningaraðferðinni hefur þáttur jurtkenndra plantna í gróðurfarssögu
landsins orðið sýnilegri. Farið verður yfir sögu jurta í 15 milljón ára
jarðsögu Íslands.

 

Ágrip erindis

Jurtir eru plöntur sem ekki eru trékenndar og geta þær verið einærar,
tvíærar eða fjölærar. Þar sem jurtir hafa ekki viðarstofn og fella ekki lauf
á haustin eins og trékenndar fjölærar plöntur eru litlar líkur á því að
plöntuhlutar þeirra vaðveitist í setlögum. Stærstur huti plöntunnar vex,
deyr og morknar niður á sama stað. Það litla sem losnar af og fýkur burt eru
t.d. krónublöð, en þau eru svo þunn og veikbyggð að þau brotna í sundur og
eyðast fljótlega í veðri og vindum. 

            Hingað til hefur hluti jurta í  jarðsögu Íslands verið með öllu
óljós nema síðustu 10 þúsund árin eða svo. Á því hefur nú orðið breyting.
Nýjustu rannsóknir frá 2007-2009 sýna að jurtir voru þá þegar til staðar í
gróðurfélögum Íslands fyrir 15 milljónum ára. Greining á frjóum úr 15 til 5
milljón ára gömlum jarðlögum og frjóum svo og sjaldgæfum steingerðum
laufblöðum úr yngri jarðlögum endurspegla sífellda aukningu jurta í
íslenskum gróðurfélögum. Að sama skapi fer trékenndum plöntum fækkandi, en
þær mynda um 86 prósenta hlut af þeim tegundum sem fundist hafa úr 15
milljón ára gömlum jarðlögum. Niðurstöður benda til þess að fyrir um 10
milljónum ára síðan voru jurtir orðinn hlutfallslega jafn ríkjandi hópur og
trékenndar plöntur.

 

(ágrip í fullri lengd og myndir má nálgast á heimasíðu félagsin; www.hin.is)

 

Þessi tilkynning er send nemendum og starfsmönnum helstu stofnana og
fyrirtækja sem fást við rannsóknir á náttúru Íslands. 

Vonum að sem flestir mæti.

 

Fyrir hönd Hins íslenska náttúrufræðifélags

Esther Ruth Guðmundsdóttir, fræðslufulltrúi HÍN

 

-------------- next part --------------
An HTML attachment was scrubbed...
URL: http://listar.hi.is/pipermail/folda/attachments/20090326/22dc333d/attachment.html


More information about the Folda mailing list