[Folda] Jöklabreytingar og loftslag - Erindi á vegum HÍN

Friðgeir Grímsson fossil at hi.is
Thu Oct 23 12:58:34 GMT 2008


Ágæti viðtakandi

 

Mánudaginn 27. október kl. 17:15 verður haldið annað fræðsluerindi
vetrarins. 

Erindið verður haldið í stofu 132, í Öskju, Háskóla Íslands.

 

 

Jöklabreytingar og loftslag

Fil. kand. Oddur Sigurðsson mun flytja erindi um áhrif loftslagsbreytinga á
jökla Íslands. Oddur er jarðfræðingur á Vatnamælingum (Orkustofnun) og er
sérfræðingur á sviði jöklafræði. Hann hefur skrifað fjölda fræðigreina og
bóka um jökla landsins. Oddur er viðurkenndur náttúruljósmyndari og eru
skrif hans oft vel studd af faglegum ljósmyndum. 

 

Geysilegar breytingar hafa orðið á íslenskum jöklum á sögulegum tíma og
sennilega eru þær hvað örastar á okkar dögum. Talið er að jöklarnir hafi
verið mun umfangsminni á landnámsöld heldur en nú. Að öllum líkindum hefur
veðurfar kólnað nokkuð samfellt fyrstu 1000 ár Íslandsbyggðar og voru jöklar
stærstir í kringum 1890 og höfðu þá ekki orðið stærri síðan ísöld lauk fyrir
um 10.000 árum. Á 20. öld hlýnaði töluvert í heiminum og fór Ísland ekki
varhluta af því. Jöklar landsins minnkuðu þá um það bil jafnmikið og þeir
höfðu stækkað næstu 3 aldir þar á undan þrátt fyrir kuldatímabil eftir 1965
en þá stækkuðu þeir bæði að rúmmáli og flatarmáli. Síðustu 12 árin tók
steininn úr. Sennilega er það hlýjasta 12 ára tímabil í Íslandssögunni, enda
rýrna jöklar örar nú en vitað er til um að gerst hafi áður. Lætur nærri að
flatarmál jöklanna minnki nú um 0,3% á ári hverju og rúmmálið um allt að
0,5%. Með slíku áframhaldi endast þeir vart meira en tvær aldir.

Utanaðkomandi þættir aðrir en loftslag geta haft veruleg áhrif á afkomu
jökla. Þeirra helstir eru lón sem jökullinn kelfir í, aurkápa á yfirborði
jökulsins sem tefur mjög bráðnun, eldgos sem geta brætt stóran hluta jökuls
í einu vetfangi og jarðhiti sem bræðir suma jökla neðan frá án afláts. Alls
þessa verður að gæta þegar mældar breytingar eru túlkaðar út frá loftslagi.
Í erindinu verða sýnd dæmi um mismunandi gerðir jökla og hvernig sjá má á
þeim hvert eðlið er. Þar eru m.a. Hyrningsjökull í Snæfellsjökli sem svarar
veðurfarsbreytingum strax, Síðujökull en hann gengur einungis fram í snöggum
stökkum á nokkurra áratuga fresti, Gígjökull í Eyjafjallajökli var nánast
bræddur til þurrðar í eldgosi 1821-1823, Breiðamerkurjökull en úr honum
sýgur Jökulsárlón merginn og tvíburarnir Hoffellsjökull og Svínafellsjökull
í Hornafirði sem búa við misjafnan vöxt þótt atlætið sé svipað.

 

(ágrip í fullri lengd og myndir má nálgast á heimasíðu félagsin; www.hin.is)

 

Þessi tilkynning er send starfsmönnum helstu stofnana og fyrirtækja sem fást
við rannsóknir á náttúru Íslands. 

Vonum að sem flestir mæti.

 

Fyrir hönd Hins íslenska náttúrufræðifélags

Friðgeir Grímsson, fræðslufulltrúi HÍN

 

-------------- next part --------------
An HTML attachment was scrubbed...
URL: http://listar.hi.is/pipermail/folda/attachments/20081023/25f205ac/attachment.html


More information about the Folda mailing list