[English] LÍN og Landsbankinn semja um námslánaábyrgðir

Tinna Steindorsdottir tinnaste at hi.is
Wed Oct 13 11:59:02 BST 2004


LÍN og Landsbankinn semja um námslánaábyrgðir





Landsbanki Íslands hf. og Lánasjóður ísl. námsmanna hafa gert samkomulag
um námslánaábyrgðir.  Í stað þess að tilnefna ábyrgðarmenn geta námsmenn
nú samið um bankaábyrgð á námslán sín hjá Landsbankanum.  Ábyrgð
Landsbankans getur með öðrum orðum komið í stað sjálfskuldarábyrgðar
einstaklings sem fram að þessu hefur verið nánast undantekningarlaust
skilyrði námslána hjá LÍN.




Hér er um stóran áfanga að ræða fyrir LÍN og námsmenn, þar sem þess hefur
verið beðið lengi að lánþegar gætu tryggt námslán sín hjá sjóðnum með
öðrum hætti en uppáskrift ábyrgðarmanna.  Samningurinn þýðir aukið
valfrelsi fyrir alla námsmenn, en jafnframt mikla réttarbót fyrir þá sem
eiga erfitt með að útvega ábyrgðarmenn.  Samningurinn styrkir það markmið
stjórnvalda að tryggja öllum sem eiga rétt á lánum hjá LÍN tækifæri til
náms án tillits til efnahags.



Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, sagði að Landsbankinn hefði
með stofnun námsmannaþjónustu bankans, Námunnar, fyrir 15 árum haft
frumkvæði að bjóða sérstaka þjónustu fyrir námsmenn.  Þjónusta við
viðskiptavini LÍN og umboðsmenn námsmanna hefði frá upphafi verið
mikilvægur þáttur þjónustunnar. "Við í Landsbankanum erum stolt af því að
hafa einnig rutt brautina hvað hagsmunamál námsmanna varðar," sagði
Sigurjón.



Veiting lánaábyrgðar Landsbankans er háð því að umsækjandi standist
skilyrði um fjárhagsstöðu og skilvísi.  Fyrir veitta ábyrgð þarf 
lántakandi að greiða 980 kr. afgreiðslugjald og 2,5% ábyrgðargjald. 
Greiðslan er miðuð við heilt skólaár og kemur til frádráttar við  útborgun
námsláns.



Í máli Gunnars I. Birgissonar, stjórnarformanns LÍN, kom m.a. fram að
samkomulag LÍN og Landsbankans um lánaábyrgðina hefur verið í undirbúningi
í rúmt ár, en frá upphafi var ljóst að yfirstíga þurfti margar hindranir. 
Til dæmis var nauðsynlegt að breyta úthlutunarreglum sjóðsins svo að banki
gæti komið í stað einstaklings sem ábyrgðaraðili og jafnframt tryggja að
bankaábyrgðin væri sambærileg trygging fyrir sjóðinn og hefðbundin
uppáskrift ábyrgðarmanns.



Almennur umsóknarfrestur um námslán er liðinn fyrir skólaárið 2004-2005 og
flestir umsækjendur nú þegar búnir að tilgreina ábyrgðarmenn.  Því mun
væntanlega lítið reyna á hinn nýja samning vegna yfirstandandi skólaárs. 
Hins vegar býðst nú öllum lánþegum LÍN og viðskiptavinum Landsbankans nýr
valkostur við lántökur hjá LÍN til lengri tíma litið.



Bestu kveðjur,

Náman



Fyrirvari/Disclaimer: http://li.is/index.aspx?GroupId=275
-------------- next part --------------
An HTML attachment was scrubbed...
URL: http://listar.hi.is/pipermail/english/attachments/20041013/ef5fee14/untitled-2.html


More information about the English mailing list